Brynjar Benediktsson, framkvæmdastjóri og eigandi Soccer and Education, segir íslenska íþróttakrakka spennta að komast aftur út í skólana sína.
Brynjar og Jóna Kristín Hauksdóttir, unnusta hans og meðeigandi, hafa verið að senda íslenska krakka til náms og íþróttaiðkunar í Bandaríkjunum síðustu ár en er kórónuveiran skall á snéru þau flest öll heim.
Nú fara skólarnir að byrja aftur og margir íslenskir leikmenn eru nú hér heima að spila í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu en Brynjar reiknar með að flestir þeirra haldi út strax í ágúst.
„Krakkarnir eru frekar slök yfir þessu. Það jákvæða er að Íslendingarnir eru að fara í mjög góða skóla og þar eru sóttvarnir upp á tíu. Skólarnir væru aldrei að fara í gang ef það væri eitthvað hættulegt.“
Brynjar segir að um 150 krakkar séu á leið út í haust en einhverjir hafa skoðað það að taka næsta hálfa ár í fjarnámi, sé það hægt.
„Við erum mjög náin deildunum og erum að skoða það núna að ef þú spilar hér heima og ert í fjarnámi. Hvort þú gætir komið út í janúar og þess háttar. Við erum að að reyna vinna með hverjum og einum og finna bestu lausnina.“
„Íslendingarnir eru í topp skólum sem eru að vinna þetta hrikalega vel og þegar þetta kom upp í vor þá komu þau heim og voru í fjarnámi. Við vinnum þetta svo með hverjum og einum skóla.“
Hann hrósar bæði skólunum og krökkunum fyrir viðbrögð sín á tímum faraldursins.
„Þetta hefur gengið betur en maður bjóst við og hrós á krakkana og skólana sem stóðu sig vel í öllu þessu,“ sagði Brynjar.