Verksmiðja undir merkjum nýsköpunarfyrirtækisins Responsible Foods ehf. sem framleiða mun nasl úr sjávarafurðum verður opnuð á Fáskrúðsfirði á næstu mánuðum. Gert er ráð fyrir að um tíu störf skapist í bænum við framleiðsluna.
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, móðurfélag Loðnuvinnslunnar hf., fjárfesti í Responsible Foods og verða hráefni Loðnuvinnslunnar notuð í framleiðslu á naslinu. Í tilkynningu frá Responsible Foods segir að með fjárfestingu kaupfélagsins og uppsetningu verksmiðjunnar á Fáskrúðsfirði tvöfaldist afkastageta félagsins.
„Við framleiðsluna á Fáskrúðsfirði munu skapast allt að 10 fjölbreytt störf á næstu árum, samfélaginu þar til hagsbóta,“ segir í tilkynningu.
Bandaríkjamaðurinn Dr. Holly T. Kristinsson stofnaði Responsible Foods í fyrra. Fyrirtækið rekur þegar verksmiðju í húsi Sjávarklasans úti á Granda í Reykjavík, þar sem framleitt er nasl úr íslenskum hráefnum undir vörumerkinu Næra TM. Í verksmiðjunni á Fáskrúðsfirði verður eingöngu framleitt fiskinasl, sem fyrirtækið segir alveg laust við fiskilykt.
Responsible Foods stefnir á að setja fyrstu vörur sínar á markað á Íslandi í lok sumars á þessu ári. Meginþorri framleiðslunnar mun fara á erlendan markað, einkum Bandaríkjamarkað.

Endurnærð eftir að hún flutti til Íslands
Holly T. Kristinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Responsible Foods, segir í samtali við Vísi að um sé að ræða afar spennandi tækifæri fyrir fyrirtækið.
„Við erum að vinna að því setja upp vinnsluna á Fáskrúðsfirði í haust. Í framhaldi af því myndi framleiðslan hefjast og vörur settar á markað.“
Holly ólst upp í Alaska en hefur búið víðar í Bandaríkjunum. Hún kveðst hafa orðið endurnærð við flutninginn til Íslands.
„Ég hafði aðgang að ferskum og náttúrulegum hráefnum í æsku og þegar ég kom til Íslands komst ég aftur í kynni við þessar rætur mínar. Ég hugsaði með mér að það væri frábært að koma Íslandi á kortið með þessum hætti sem við erum að gera,“ segir Holly.
Naslframleiðsla nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi hefur færst nokkuð í aukana síðustu ár. Ostasnakkið Lava Cheese ruddi sér til rúms árið 2016 og þá hefur verið ráðist í framleiðslu á snakki úr íslenskum kartöflum, til að mynda undir merkjum „Ljótu kartaflanna.“ Þá má einnig finna „Bopp“, snakk úr íslensku bankabyggi, og kjötsnakk undir merkjum Feed the Viking í verslunum landsins.