Carrie Lam, æðsti embættismaður Hong Kong, hefur ákveðið að fresta þingkosningum þar. Vísaði hún til aukinnar útbreiðslu nýju kórónuveirunnar sem ástæðu og sagðist hún njóta stuðnings Kommúnistaflokks Kína. Smituðum hefur farið fjölgandi í Hong Kong í þessum mánuði en lýðræðissinnar þar segja Lam og Kommúnistaflokkinn vera að nota faraldurinn sem skálkaskjól.
Stjórnarandstaðan í Hong Kong vonaðist til þess að ná meirihluta á þinginu. Þar er þó eingöngu kosið um helming þingsæta. Hin þingsætin sitja aðilar sem eru að mestu hliðhollir Kommúnistaflokknum.
Í gær meinaði ríkisstjórn Lam tólf lýðræðissinnum að bjóða sig fram í kosningunum. Ríkisstjórnin sagði þá ekki hæfa til að sitja á þingi. Einhverjir þeirra hefðu kallað eftir sjálfstæði Hong Kong, aðrir hefðu hvatt önnur ríki til að hafa afskipti af málefnum Hong Kong og yfirlýsingar um að þeir myndu ekki lúta nýjum og verulega umdeildum öryggislögum Hong Kong.
Kosningarnar áttu að fara fram þann 6. september. Lam segist ætla að fresta þeim um ár en það fer gegn stjórnarskrá Hong Kong. Bæði þar sem stjórnarskráin segir að hvert kjörtímabil megi ekki vera lengra en fjögur ár og vegna þess að hún segir að ekki megi fresta kosningum í meira en tvær vikur.
Hong Kong var yfirráðasvæði Breta um árabil þar til árið 1997. Þá var eyjan færð aftur undir stjórn meginlands Kína en samkvæmt samkomulagi Breta og Kínverja áttu ákveðin réttindi íbúa þar að vera tryggð í minnst 50 ár.
Kommúnistaflokkurinn hefur verið sakaður um að brjóta gegn því samkomulagi með áðurnefndum öryggislögum, sem tóku gildi þann 1. júlí og er ætlað að þagga í öllum gagnrýnisröddum. Umfangsmikil og langvarandi mótmæli hafa staðið yfir í Hong Kong vegna málsins á undanförnu ári.