Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa sent kollegum sínum í Líbanon samúðarkveðjur. Í skeyti Guðna minnti hann Michel Aoun, forseta Líbanon, á það að íslensk stjórnvöld væru fús til að útvega aðstoð við björgunaraðgerðir.
Bæði Guðni og Dagur komu því á framfæri að hugur íslensku þjóðarinnar væri hjá þeim sem söknuðu ástvina sinna og fjölskyldum þeirra sem létu lífið í sprengingunni.
113 eru látnir og fjölmargra er enn saknað eftir að gríðarstór sprenging var í höfuðborginni Beirút í gær. Talið er að eldur hafi kviknað í vöruskemmu þar sem flugeldar voru geymdir ásamt 2.750 tonnum af ammóníum nítrati. Efnið er notað í áburð og sprengiefni.
"I lost my hearing for a few seconds. I knew something was wrong."
— BBC World Service (@bbcworldservice) August 5, 2020
Homes destroyed, over 100 dead and more than 4,000 people injured. Eyewitnesses describe the horror of the deadly Beirut explosion https://t.co/oNE0KGlHxF pic.twitter.com/hXufhdKVSy
Björgunaraðilar leita nú að fólki í húsarústum og hefur tveggja vikna neyðarástandi verið lýst yfir. Margir leituðu á sjúkrahús eftir sprenginguna og skapaðist erfitt ástand á heilbrigðisstofnunum vegna skorts á sjúkrahúsrúmum og búnaði til þess að hlúa að þeim sem særðust.
Margar þjóðir hafa boðið fram aðstoð sína og hafa til að mynda þrjár franskar flugvélar verið sendar til Líbanon með björgunarsveitarfólk og læknabúnað. Evrópusambandið hefur sent hundrað slökkviliðsmenn með farartæki, leitarhunda og annan búnað. Þá hafa fimm flugvélar verið sendar frá Rússlandi með björgunarsveitarfólk og lækna.