Sprengingin sem varð í líbönsku höfuðborginni Beirút á þriðjudag var álíka kröftug og minni jarðskjálfti sem varð til þess að fólk fann fyrir henni í margra tugra kílómetra fjarlægð.
Gígurinn sem myndaðist á hafnarsvæðinu hefur nú mælst vera 43 metra djúpur, að því er AFP hefur eftir heimildarmönnum innan líbanska stjórnkerfisins.
Gervihnattamyndir sýna að nú megi finna stóra holu, fyllta af sjó, á þeim stað þar sem sprengingin varð.

Alls fórust rúmlega 150 manns í sprengingunni, fimm þúsund særðust og er fjölda enn saknað. Þá misstu um 300 þúsund manns heimili sín.
Sprengingin varð í vöruhúsi þar sem verið var að geyma ammóníum nítrat sem notað er í áburð og sprengiefni.
Koma saman á símafundi
Fjöldi leiðtoga ríkja heims munu í dag ræða saman á símafundi og skipuleggja fjársöfnun fyrir Líbani sem glíma nú við afleiðingar sprengingarinnar.
Það eru frönsk stjórnvöld og Sameinuðu þjóðirnar sem eiga frumkvæði að söfnuninni, en Donald Trump Bandaríkjaforseti er einn þeirra sem mun taka þátt á fundinum.
Í frétt BBC segir að tjónið sé metið á 15 billjónir Bandaríkjadala.