Samhæfingarstöð í Skógarhlið í Reykjavík var virkjuð vegna snjóflóða á Flateyri og í Súgandafirði á tólfta tímanum í gærkvöld og er enn að störfum. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, og dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, litu þar við á tíunda tímanum í morgun.
Neyðarstigi var lýst yfir vegna snjóflóðanna og tók aðgerðastjórn á Ísafirði til starfa klukkan 23:44 í gærkvöld. Tólf mínútum síðar var búið að virkja Samhæfingarstöðina í Skógarhlíð, þar sem „samhæfing aðgerða“ fer fram.
Sjá einnig: Aukafréttatími í hádeginu á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni
Í mörg horn hefur verið að líta; björgunarsveitir voru kallaðar út, Varðskipið Þór flutti menn, vistir og slasaða unglingsstúlku, huga hefur þurft að veðri og færð auk þess sem Rauði krossinn hefur unnið að uppsetningu fjöldahjálparstöðvar.
Áslaug Arna tjáði sig stuttlega um snjóflóðin á Twittersíðu sinni í morgun. Þar sagði hún björgunarfólk hafa unnið þrekvirki þegar það bjargaði unglingsstúlkunni úr öðru flóðinu, hugur ráðherrans sé hjá Flateyringum, öðrum Vestfirðingum sem og viðbragðsaðilum öllum.
Fjöldahjálparstöð verður sett upp á Flateyri enda mikið áfall og minnir mikið á snjóflóðið sem féll 1995. Hugur minn er hjá Flateyringum og öðrum Vestfirðingum sem og viðbragðsaðilum öllum.
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) January 15, 2020
Nánar verður rætt við ráðherrana í aukafréttatíma í hádeginu á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni. Útsendingin hefst klukkan tólf og verður hægt að nálgast útsendinguna hér.