Frægur nýhættur leikstjórnandi í ameríska fótboltanum heldur því fram að það sé ekki mikið vandamál að vinna gullverðlaun í handbolta á Ólympíuleikunum.
Bandaríkjamenn eru ekki þekktir fyrir að geta eitthvað í handbolta og er handboltinn ein af fáum íþróttum á Ólympíuleikunum þar sem Bandaríkjamenn eru ekki í baráttu um verðlaun.
Jay Cutler er 36 ára gamall og nýhættur í ameríska fótboltanum en hann gæti alveg hugsað sér að setja saman handboltalið fyrir keppni á Ólympíuleikum.
Jay Cutler wants to put together an Olympic handball team: "There's a US team. I wanna go to do that, just throwing missiles." https://t.co/vW8jDQPvdR
— Heart of NFL (@HeartofNFL) January 30, 2020
Jay Cutler var leikstjórnandi í NFL-deildinni í ellefu ár, lengt af hjá liði Chicago Bears. Hann lék síðast með Miami Dolphins tímabilið 2017.
„Ég er að hugsa um að setja saman lið til að keppa á Ólympíuleikunum í íþrótt sem ég held að heiti handbolti. Þar eru þeir með lítinn bolta sem þeir kasta svo í markið. Þetta er eins og fótbolti innanhúss nema að þeir kasta boltanum,“ sagði Jay Cutler og hann er sigurviss.
„Ég lofa því að við getum sett saman lið sem vinnur gull á Ólympíuleikum,“ sagði Cutler, Handbolti er aðeins einn þriggja íþrótta sem Bandaríkjamenn hafa aldrei unnið verðlaun í á Ólympíuleikum. Domonique Foxworth var með honum í hlaðvarpsþættinum og tók undir hans orð.
Hey Jay Cutler and @Foxworth24 , i don t think you have studied handball enough but i d be glad to give you my olympic gold medal if you beat my team. #handball@espn@HandballHour@PardonMyTakehttps://t.co/jX7ty245DQ
— NIKOLA KARABATIC (@NKARABATIC) February 1, 2020
Franska stórstjarnan og tvöfaldur Ólympíumeistari, Nikola Karabatic, sá ástæðu til að skjóta á Jay Cutler á Twitter.
„Heyrðu, Jay Cutler og Domonique Foxworth. Ég held að þið hafið nú ekki skoðað handboltaíþróttin nógu vel en ég skal gefa ykkur Ólympíugullið mitt ef þið vinnið mitt lið,“ skrifaði Nikola Karabatic eins og sjá má hér fyrir ofan.