3.500 leikskólabörn verða senda heim á hádegi á morgun vegna verkfallsaðgerða Eflingar. Enginn árangur náðist á samningafundi félagsins og borgarinnar hjá sáttasemjara í dag.
Efling hefur fallist á þær hækkanir sem lífskjarasamningarnir hljóða upp. Félagið gerir hins vegar kröfu um 52 þúsund króna hækkun aukalega til að leiðrétta lág laun félagsmanna, samtals 142 þúsund króna hækkun á mánuði.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði við fréttastofu í dag að viðræðurnar strönduðu helst á þessari kröfu og ekki sæist til lands.
Því er ljóst að verkfallsaðgerðir munu hefjast í hádeginu morgun og hafa talsverð áhrif. 3.500 börn verða til dæmis send heim á hádegi á morgun en áhrifin eru mismunandi eftir leikskólum.
„Þannig eru tveir leikskólar sem munu hreinlega loka en síðan eru aðrir skólar sem munu geta haldið uppi nánast fullri þjónustu og aðrir þar sem þjónustan verður mjög skert,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar.
Bjarni segir að foreldrar verði vel upplýstir um hvernig röskunin mun hafa áhrif. Aðgerðirnar hafa auk þess þau áhrif að sorp verður ekki hirt eftir hádegi á morgun.
„Það verður frestun á hirðu í einhverjum hverfum þar sem þeir eru að hirða en þeir munu vinna það af sér á föstudag og síðan á laugardag væntanlega og þá fá þeir borgaða yfirvinnu fyrir það,“ segir Bjarni
Þá munu snjóhreinsun og hálkuvarnir á aðskildum hjólaleiðum og stofnanaleiðum falla niður.
Reykjavíkurborg sótti um undanþágu fyrir 250 stöðugildi af 450 hjá velferðarsviði.
„Þetta eru náttúrulega bara undanþágur vegna viðkvæmustu þjónustunnar sem við rekum, fyrir aldrað fólk og fatlað fólk og svona þá sem minnst sem mega sín í samfélaginu, fólk með greiningar sem þarf á neyðargistingu að halda og slíkt og Efling varð við þessu öllu saman,“ segir Bjarni.