Bláfjallavegi (nr. 417) frá Bláfjallaleið og að hellinum Leiðarenda verður lokað varanlega á morgun klukkan 15.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Þar segir að lítil umferð sé um þennan veghluta og vegurinn ekki þjónustaður yfir vetrarmánuðina.
„Víða eru brattir vegfláar og því hætta á að bílar velti með tilheyrandi hættu á olíumengun. Talið er mikilvægt að huga að vatnsvernd og grípa inn í áður en hugsanlegt óhapp verður en Bláfjallavegur liggur að stórum hluta innan vatnsverndarsvæðis.
Aðal leiðin í Bláfjöll liggur frá Suðurlandsvegi. Vegagerðin mun lagfæra vegsvæðið á þeim kafla til að minnka hættu á slysum til muna,“ segir í tilkynningunni.