Þetta hefur verið erfitt, ekki síst andlega, segir Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handbolta sem glímt hefur við axlarmeiðsli frá því í maí árið 2018.
Gísli meiddist fyrst á öxlinni í úrslitakeppninni með FH á Íslandsmótinu fyrir tveimur árum og í kjölfarið fór Gísli úr axlarlið með Kiel í þýsku úrvalsdeildinni.
FH-ingurinn samdi við Magdeburg í janúar og í fyrsta leik sínum með félaginu meiddist hann enn á ný illa á öxl og þurfti í aðgerð.
„Ég fékk margskonar yfirlýsingar frá læknunum sem voru sláandi. Auðvitað byrjaði hugurinn að hugsa allt það versta. Það er alltaf sem gerist á þessum mómentum, síðustu tvö ár. Þegar þetta gerist kemur það versta upp í hugann,“ sagði Gísli við Guðjón Guðmundsson.
„Auðvitað er þetta ótrúlega leiðinlegt sem gerðist. Ég er búinn að fara í aðgerð aftur. Síðast var það á hægri en núna er það vinstri. Þetta er mjög leiðinlegt. Þetta er búið að vera meira og minna mitt annað heimili,“ sagði Gísli er hann var staddur í líkamsræktarsalnum í Kaplakrika.
Gísli segir að gott sé að komast út með neikvæðar tilfinningar sem koma upp á svona stundum.
„Það er mjög gott að koma því neikvæða frá sér. Síðan kemur reiðiskast og maður hugsar neikvætt. Þetta er búið að vera langt tímabil sem ég hef verið meiddur og hefur verið að endurtaka sig. Þetta snýst um að hugsa jákvætt,“ sagði Gísli.
Nánar verður rætt við hann á Vísi í fyrramálið.
