Kínverski ferðamaðurinn Wei Li er í ákveðinni pattstöðu á Íslandi eftir að hafa ferðast hingað til lands með 170 kíló af hundrað krónu og fimmtíu krónu mynt andvirði 1,6 milljóna króna.
Li ætlaði að skipta myntinni í handhægari seðla í Seðlabanka Íslands, eins og hann segist hafa gert tvisvar áður, en fékk neitun. Ekki voru móttökurnar betri í Arion banka þar sem átta lögreglumenn mættu og spurðu Li spjörunum úr.
Greint er frá veseni Li í Fréttablaðinu í dag. Li segist fá myntina frá braskara í Kína og viti ekki nákvæmlega hvaðan myntin kemur. Að hluta frá endurvinnslufyrirtæki sem kaupi samanpressaða bíla frá Íslandi þar sem leynist klink. Li borgar ekkert fyrir myntina nema ef honum tekst að skipta henni. Þá fær braskarinn hluta af ágóðanum.

Li segist hafa fengið upplýsingar í síðustu Íslandsheimsókn að til stæði að breyta reglum hjá Seðlabankanum. Því hafi hann kannað það sérstaklega fyrir ferðalagið hingað til lands en komist að því að reglurnar væru óbreyttar. Hann klórar sér því í hausnum yfir neituninni. Ástand hundraðkallanna er misjafnt, sumir heilir en aðrir talsvert skemmdir.
Hann segist opinn fyrir því að gefa skemmdu myntina til góðgerðamála enda hafi hann lítið við hana að gera fáist henni ekki skipt.