Rúnar Kárason lét mikið til sín taka þegar lið hans Ribe-Esbjerg gerði 26-26 jafntefli við Kolding í slag Íslendingaliða í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
Rúnar skoraði 10 mörk og var markahæstur á vellinum. Hann jafnaði metin í 26-26 þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka en skot hans á lokasekúndu leiksins var hins vegar varið.
Gunnar Steinn Jónsson skoraði tvö marka Ribe en Daníel Þór Ingason var ekki á meðal markaskorara. Ólafur Gústafsson og Árni Bragi Eyjólfsson skoruðu ekki heldur fyrir Kolding en Ólafur fékk tvær brottvísanir. Fram kom fyrr í dag að Ólafur færi frá Kolding í sumar og að líklegt væri að Árni Bragi færi einnig.
Ribe komst með jafnteflinu upp fyrir Skjern í 5. sæti deildarinnar með 24 stig, stigi á eftir Bjerringbro-Silkeborg sem mætir Skjern á morgun. Kolding er í 12. sæti með 11 stig, fjórum stigum frá beinu falli en annars á leið í umspil.
Rúnar með tíu mörk gegn Ólafi og Árna
