Það stefnir í að karlalið Vals í handbolta muni ekki taka þátt í Evrópudeildinni í vetur. Ástæðan eru þær ferðatakmarkanir sem settar hafa verið sökum kórónufaraldursins.
Þetta staðfest Gísli Gunnlaugsson, formaður handknattleiksdeildar Vals, er hann ræddi við Valtý Björn Valtýsson í útvarpsþættinum Mín skoðun í dag.
Í lok mánaðarins á Valur að mæta danska félaginu Holstebro í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar. Leika átti báða leikina í Danmörku.
Valtýr Björn spurði Gísla hverjar líkurnar væru á að Valur myndi draga sig úr keppni.
„Þær líkur eru meiri en minni. Við erum ekki að fara fá neinar undanþágur frá sóttkví. Þaðe r verið að biðja Íslendinga um að ferðast ekki og við getum ekki flogið í einkavél eins og fótbotlaliðin,“ sagði Gísli.
Eins og sóttvarnareglur eru í dag þá væri erfitt fyrir Val að fara erlendis og spila án þess að þurfa fara í sóttkví við heimkomuna.
„Það voru flest allir leikmenn til í að gera þetta en þetta er sennilega ekki alveg verjandi,“ sagði Gísli að lokum við Valtý.