Eins og kom fram í Kompás í vikunni eru mörg dæmi um að konur með þroskahömlun leiðist út í vændi. Í vikunni hefur komið fram að um tíu konur með þroskahömlun leita til Neyðarmóttökunnar ár hvert og á borði réttindagæslu fatlaðs fólks er á fjórða tug ofbeldismála.
Allir viðmælendur eru sammála um að þessi hópur kvenna sé sérstaklega berskjaldaður fyrir ofbeldi og ein besta leiðin til að styrkja þær sé að veita þeim fræðslu og stuðning.
María Jónsdóttir, félagsráðgjafi hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, segir fullorðnar konur með þroskahömlun hafa fengið afar litla kynfræðslu þegar þær voru yngri. Þær þurfi sérsniðna, stöðuga og endurtekna fræðslu - sem er myndræn á einföldu máli - svo þær geti tekist á við ýmsar áskoranir.
„Þetta er gríðarlega flókinn heimur í dag með tilkomu samfélagsmiðla og nýjum samskiptaformum á netinu. Konurnar ær eru enn þá meira útsettari í dag og við verðum að huga að því hvernig við viljum styrkja þær og styðja til að takast á við þetta samfélag,“ segir hún.
María rekur vefinn Leiknir.is ásamt fleirum sem er með fræðsluefni um kynheilbrigði og sérhæfð námskeið fyrir fólk með frávik í þroska. Hún segir aðsóknina ekki nógu góða.
„Þær eru ekki að skila sér inn á námskeiðið. Þetta er falinn hópur, þær þekkja ekki hvaða leiðir til að fara að leita sér aðstoðar og þær geta ekki staðið straum af kostnaði við námskeiðið.“
María segir mikilvægt að undirbúa ungar konur með þroskahömlun betur fyrir kynþroskaskeiðið.
Undirbúa þurfi ungar konur með þroskahömlun betur undir að vera kynverur.
„Við þurfum samstillt átak hvernig við ætlum að gera þetta og með hvaða hætti svo þetta verði þessu fólki að kostnaðarlausu.“