Tveir markahæstu leikmenn 2. deildar kvenna í fótbolta koma úr röðum HK. Þetta eru þær María Lena Ásgeirsdóttir og Karen Sturludóttir.
Þrettán ára aldursmunur er á þessum marksæknu leikmönnum. María Lena er fædd 2002 en Karen 1989.
Karen var aðeins þrettán ára þegar hún skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki. Hún gerði tvö mörk í 0-4 sigri HK/Víkings á HSH í Ólafsvík í 1. deild kvenna 16. júlí 2003. Þá var María Lena nýorðin eins árs. Hún fæddist 11. maí 2002. Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari hjá HK, benti á þessa skemmtilegu staðreynd á Twitter.
María Lena og Karen Sturlu. leikmenn HK eru markahæstar í 2.deild kvenna. María Lena var nýorðin eins árs þegar Karen skoraði sitt fyrsta mark í deildarkeppni fyrir meistaraflokk #liðfolksins
— Ómar Ingi (@OmarIngiGud) August 26, 2020
Eftir síðasta tímabili ákváðu HK og Víkingur að hætta að tefla fram sameiginlegu liði í meistaraflokki kvenna sem félögin höfðu gert um árabil.
HK hóf leik í 2. deild í sumar og það er óhætt að liðið hafi farið vel af stað. HK-ingar eru á toppi deildarinnar með 24 stig, átta stigum á undan Grindvíkingum sem eru í 2. sæti. HK hefur unnið átta af níu leikjum sínum og er með markatöluna 34-2.
María Lena hefur skorað þrettán af mörkum HK og Karen níu en þær eru, eins og áður sagði, markahæstar í deildinni. Karen tók fram skóna í vetur eftir nokkurra ára hlé til að hjálpa ungu liði HK á fyrsta tímabili þess í deildarkeppni í meistaraflokki kvenna.
Næsti leikur HK er gegn sameiginlegu liði Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis F. í Kórnum á laugardaginn. Á þriðjudaginn sækir HK svo ÍR heim.