Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur nú yfirfarið 2.200 sýni af þeim sex þúsund sem endurskoða þurfti eftir að í ljós kom að mistök höfðu verið gerð við greiningu hluta þeirra. Nú hefur komið í ljós að fimmtíu og tvær þeirra eru með vægar frumubreytingar. Þetta segir Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir, kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins, í samtali við fréttastofu.
Áður hafði komið fram að um þrjátíu konur hefðu ranglega fengið neikvæða greiningu við skoðun leghálssýna. Ein kona er með ólæknandi krabbamein en hún fékk ranga greiningu í skoðun árið 2018.
Funduðu vegna gagns sem fannst
Þá funduðu fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands, Krabbameinsfélags Íslands og embættis landlæknis sameiginlega í dag til að fara yfir níu blaðsíðna gagn sem fannst í gær. Skjalið var unnið í desember árið 2017 af greiningardeild SÍ og varðar mælingar og markmið þjónustusamnings við KÍ.
Skjalið var talið geta varpað ljósi á orð Tryggva Björns Stefánssonar krabbameinslæknis sem fullyrti í Kastljósi í síðustu viku að gæðaeftirlit Krabbameinsfélagsins hefði verið í lamasessi árið 2017.
Krabbameinsfélagið óskaði í framhaldinu eftir gögnum frá Sjúkratryggingum sem styddu fullyrðingar Tryggva Björns. Engin gögn bárust.
„Ég hef á þessari stundu ekki séð gögn sem gætu staðið undir þessari fullyrðingu,“ sagði María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Skjalið sagt ófullbúið
Í tilkynningu aðilanna að loknum fundi kemur fram að augljóst sé að umrætt skjal er ófullbúið vinnugagn sem byggir á gögnum frá KÍ og samskiptum starfsmanna KÍ og SÍ. Í skjalinu má finna misskilning og ranga hugtakanotkun enda er krabbameinsskimun flókið viðfangsefni og túlkun efnisins krefst sérfræðiþekkingar.
Skjalið var sent velferðarráðuneytinu í febrúar 2018 án þess að fram kæmi að um vinnugagn væri að ræða en skjalið hafði ekki verið sent KÍ til yfirlestrar áður en því var komið til ráðuneytisins. Aðilar eru sammála um að óábyrgt væri að birta skjalið án nánari skýringa og athugasemda af hálfu KÍ.
„Það er mat landlæknis eftir sameiginlega yfirferð með SÍ og KÍ að það séu engar upplýsingar í skjalinu sem kalla á viðbrögð heilbrigðisyfirvalda umfram þá skoðun sem þegar er hafin hjá embætti landlæknis.“