Þúsundir flóttamanna til viðbótar eru án skjóls eftir að það litla sem stóð eftir af Moria-flóttamannabúðunum á Grikklandi eftir eldsvoða á aðfaranótt miðvikudags varð öðrum eldi að bráð í nótt. Margir þeirra þurftu að sofa á ökrum, í vegarköntum og í litlum kirkjugarði.
Moria-búðirnar á eyjunni Lesbos eru þær stærstu á Grikklandi. Um 12.500 manns hafast við í og við búðirnar. Áætlað er að um 3.500 þeirra hafi misst tímabundin heimili sín í eldsvoðanum í fyrrinótt.
Fyrrum íbúar þar fengu að leita að eigum sínum í brunarústunum í morgun. Grísk yfirvöld hafa sent tjöld, ferju og tvö herskip til að hýsa flóttafólkið tímabundið.
Talið er að íbúar hafi sjálfir kveikt eldinn í fyrrinótt til þess að mótmæla sóttvarnaaðgerðum sem gripið var til eftir að 35 manns greindust smitaðir af nýju afbrigði kórónuveiru á dögunum. Sterkur vindur blés lífi í glæður í leifum tjalda utan við búðirnar í nótt, að sögn AP-fréttastofunnar.
Hjálparsamtök hafa lengi varað við slæmum aðbúnaði í Moria-flóttamannabúðunum sem hafa verið yfirfullar. Upphaflega var þeim ætlað að taka við um 2.750 manns. Þar hefst við fólk sem flýr átök og fátækt í Miðausturlöndum, Afríku og Asíu og hefur smyglað sér til Evrópu í gegnum Tyrkland.