Valsmenn stigu ekki aðeins stórt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum með tveimur frábærum útisigrum á fjórum dögum þeim tókst líka að setja í leiðinni nýtt glæsilegt markamet.
Valsmenn hafa skorað níu mörk í síðustu tveimur útileikjum og það á heimavöllum liðanna sem voru að keppa við þá um Íslandsmeistaratitilinn. Við segjum voru af því að titilbaráttan er búin eftir 4-1 sigur Vals á FH í Kaplakrika í gær. Valur hafði áður unnið 5-1 sigur á Stjörnunni í Garðabænum.
Valsliðið hefur með þessu skorað 35 mörk í 9 útileikjum á þessu tímabili eða 3,9 mörk að meðaltali í leik.
Valsmenn slógu með þessu tíu ára gamalt met KR-inga frá árinu 2010. KR-liðið skoraði þá 30 mörk og varð fyrsta liðið til að rjúfa 30 marka múrinn.
KR-ingar höfðu þá slegið 32 ára met Skagamanna frá árinu 1978 sem skoruðu tveimur mörkum minna en líka í tveimur færri leikjum.
Valsmenn eru bara búnir að spila níu af ellefu útileikjum sínum og eiga því möguleika á að brjóta 40 marka útivallarmarkamúrinn fyrstir liða í sögu Íslandsmótsins. Síðustu tveir útileikir liðsins eru á móti Fylki í Árbænum og KA á Akureyri.
Valsliðið hefur unnið níu fyrstu útileiki sína og eru líka 24 mörk í plús utan Hlíðarenda (35-11). Liðið á því ennþá möguleika á að enda með fullt hús á útivelli í sumar.
- Flest mörk á útivelli á einu tímabili í efstu deild karla:
- 35 mörk - Valur 2020
- 30 mörk - KR 2010
- 28 mörk - KR 2009 og ÍA 1978
- 27 mörk - FH 2009, FH 2005 og ÍA 1993
- 26 mörk - FH 2013, Valur 2013 og FH 2008
- 25 mörk - FH 2014
- 24 mörk - KR 1960
- Methafarnir frá að farið var að spila heima og að heiman árið 1959:
- 15 mörk - KR 1959 (5 leikir) - átti metið í 1 ár
- 24 mörk - KR 1960 (5 leikir) - átti metið í 18 ár
- 28 mörk - ÍA 1978 (9 leikir) - átti metið í 32 ár
- 30 mörk - KR 2010 (11 leikir )- átti metið í 10 ár
- 35 mörk - Valur 2002 (9 leikir búnir af 11)