Sex sjúklingar liggja nú inni á Landspítalanum vegna kórónuveirunnar en innlögnum fjölgaði um einn í dag.
Af þeim sex sem eru inniliggjandi eru tveir á gjörgæslu og þar af einn í öndunarvél.
519 sjúklingar eru nú í eftirliti Covid-19 göngudeildar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn spítalans.
Alls greindust 32 með veiruna í gær en þar af voru 17 í sóttkví við greiningu.
Sóttvarnayfirvöld telja að fleiri muni þurfa á sjúkrahúsinnlögn að halda á næstu dögum. Í samtali við fréttastofu í gær sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, að róðurinn myndi þyngjast næstu daga í ljósi þess fjölda sem nú er veikur vegna kórónuveirunnar.