Hvíta húsið vissi af því að einn nánasti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseti væri smitaður af kórónuveirunni á miðvikudagskvöld en forsetinn og aðrir sem voru útsettir fyrir smiti héldu samt áfram að vera á meðal fólks. Trump og eiginkona hans greindust bæði smituð í gærkvöldi.
Hope Hicks, einn nánasti ráðgjafi Trump forseta, fann fyrir einkennum þegar hún ferðaðist með honum á kosningafund í Minnesota á miðvikudag. Sýni sem var tekið úr henni að morgni miðvikudags reyndist neikvætt en hún greindist svo jákvæð síðar um daginn. Fréttastofa CBS-sjónvarpsstöðvarinnar segir að Hvíta húsið hafi vitað af því þegar á miðvikudagskvöld.
.@cbsnews has learned Hope Hicks tested negative for COVID-19 Wednesday morning, so she boarded AF1. She developed symptoms during the day and received a second test, which came back positive. The White House knew about this Wed evening but Trump still had a fundraiser Thursday.
— Weijia Jiang (@weijia) October 2, 2020
CNN-fréttastöðin segir að hópur embættismanna í Hvíta húsinu hafi vitað af því að Hicks væri smituð á fimmtudagsmorgun. Þrátt fyrir það ferðaðist Trump forseti, sem hafði þá verið útsettur fyrir smiti, til New Jersey þar sem hann tók þátt í fjáröflunarfundi fyrir framboð sitt. Að sögn Washington Post var Trump í návígi við tugi manns á viðburðinum. Forsetinn var ekki með grímu.
Kayleigh McEnany, blaðafulltrúi Hvíta hússins, hélt einnig blaðamannafund í Hvíta húsinu í gær. Hún var ekki með grímu og minntist ekki á að Hicks hefði greinst smituð.
New York Times segir að Hvíta húsið hafi vonast til þess að fréttir af því að Hicks væri smituð spyrðust ekki út. Þær vonir hafi gufað upp eins og dögg fyrir sólu þegar sýni úr forsetahjónunum greindist jákvætt seint í gærkvöldi.
Mike Pence, varaforseti, greindi frá því í dag að sýni sem var tekið úr honum og eiginkonu hans Karen hefðu reynst neikvæð. Framboð Joe Biden, sem deildi sviði með Trump í kappræðum á þriðjudagskvöld, hefur ekki tjáð sig um hvort frambjóðandi demókrata hafi farið í sýnatöku.
Trump er nú sagður með „mild kvefeinkenni“, að sögn New York Times. Hann er sagður ætla að vinna heima í sóttkví á meðan hann jafnar sig. Fjöldi ættmenna hans og nánustu ráðgjafa sem voru í nánu samneyti við hann í vikunni og var ekki með grímu gæti þó hafa verið útsettur fyrir smiti.