Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sætti gagnrýni um helgina vegna ljósmyndar sem birtist af henni í tískutímaritinu Trendi. Sanna var í forsíðuviðtali í blaðinu og á einni myndanna sem birtist með viðtalinu klæðist hún jakka án þess að vera í skyrtu eða sjáanlegum bol innan undir. Þetta þótti mörgum óviðeigandi og lýstu yfir hneykslan sinni yfir myndinni.
Finnskar konur tóku sig þá til og byrjuðu að birta myndir af sér í svörtum jökkum og jafnvel með hálsmen líka, líkt og Sanna gerir á myndum sem birtumst í tímaritinu. Er augljóst að þær standa með henni og fagna hennar ákvörðun að klæða sig eins og hún vill. Þema tölublaðsins var hugrekki en Marin er þekkt fyrir að vera ákveðin og skoðanasterk. Hún tók 34 ára gömul við embætti á síðasta ári og er yngsti sitjandi forsætisráðherra í heimi.
Margar konur hafa birt stuðningsyfirlýsingar síðustu daga þar sem þær segja að fagmennska eða hæfni einstaklings eigi aldrei að tengjast hálsmáli á fötum. Allar konur, líka þær sem eru í valdastöðum, eigi að geta látið sjást í húð á myndum án þess að vera gagnrýndar.
Konur á öllum aldri hafa síðustu daga endurbirt umdeildu mynd Trendi eða deilt myndum af sér í svörtum jökkum, þar sem í flestum tilfellum sést í brjóstin á þeim. Nokkrir karlar hafa líka tekið þátt. Femínistar hafa tekið yfir samfélagsmiðla og kæft gagnrýnina niður með mjög táknrænum hætti.
Tímaritið Trendi hefur svo deilt myndunum áfram á sinni síðu, til að vekja enn meiri athygli á málefninu. Á meðal þeirra sem hafa tekið þátt í herferðinni er Marta Valtovirta, framkvæmdastjóri og eigandi tískumerkisins sem forsætisráðherrann klæðist á myndinni.
Hægt er að skoða hundruð mynda á Instagram undir merkingunni #imwithsanna en nokkrar þeirra má sjá hér fyrir neðan.