Skjálfti af stærðinni 3,4 reið yfir Húsavík rétt eftir klukkan tíu í kvöld. Upptök hans voru um 2,3 kílómetra norðvestur af Húsavík. Íbúi á Húsavík segir skjálftann hafa fundist vel í bænum.
Fimm smærri skjálftar hafa fylgt, sá stærsti af stærðinni 2,0.
„Við heyrðum í honum fyrst, í smá stund áður. Við vorum að flytja í blokk ásamt fleirum og héldum að það væri verið að draga til húsgögn í næstu íbúð en svo kom þungur titringur og við fundum náttúrulega vel fyrir því,“ segir Úlfhildur Sigurðardóttir, íbúi á Húsavík.
„Mér fannst þetta vera meiri titringur en ekki högg eins og síðast,“ segir Úlfhildur, en mikil skjálftahrina hefur riðið yfir á Norðurlandi undanfarna mánuði sem hófst í sumar.