Donald Trump, Bandaríkjaforseti, stóð við stóru orðin í dag og birti upptöku Hvíta hússins af viðtali hans við Lesley Stahl, fréttakonu 60 mínútna. Trump stöðvaði viðtalið á þriðjudaginn og kvartaði yfir því að Stahl væri ósanngjörn og hlutdræg. Strax um kvöldið sagði forsetinn svo á Twitter að hann væri að íhuga að birta upptöku af viðtalinu til að sýna fram á hvernig „FALSKT OG HLUTDRÆGT“ viðtal væri.
Forsetinn sagði að fólk ætti að skoða þetta og bera saman við viðtöl Joe Biden, mótframbjóðanda hans.
...Everyone should compare this terrible Electoral Intrusion with the recent interviews of Sleepy Joe Biden!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 20, 2020
Upptakan sem Trump birti var tekin upp af starfsmönnum Hvíta hússins og sýnir bara forsetann sjálfan. CBS segir að Hvíta húsið hafi heitið því að nota upptökuna eingöngu í skjalasafn ríkisstjórnarinnar.
Hún byrjar á því að Stahl spyr Trump hvort hann sé tilbúinn fyrir erfiðar spurningar og hann biður hana um að vera sanngjarna. Stahl sagði þá að síðast hefði hann verið klár í slaginn en Trump sagðist ekki vera það að þessu sinni. Hann sagðist ekki tilbúinn til að svara erfiðum spurningum og gagnrýndi Stahl fyrir að spyrja Biden ekki erfiðra spurninga.
Myndbandið sýnir að hann ver miklum tíma í að saka Stahl um að vera ósanngjarna og hlutdræga þegar hún gengur á hann að svara spurningum um meðhöndlun ríkisstjórnar hans á faraldri nýju kórónuveirunnar, efnahagsmál og ýmislegt annað.
Stahl spurði Trump fljótt að því hvert hans helsta áherslumál fyrir komandi kjörtímabil væri. Þá sagði Trump að hann hefði byggt upp besta efnahag í sögu Bandaríkjanna, sem er ekki rétt, og benti hún honum á að svo væri ekki.
„Það er víst satt,“ sagði Trump og bætti við skömmu seinna: „Þú myndir ekki segja við Biden það sem þú sagðir við mig.“
Í tísti sem Trump birti fyrr í dag sagði hann fylgjendum sínum að taka eftir framígripum Sthal og reiði hennar og bera það saman við „ítarleg, flæðandi og „mikilfenglega snilldarleg““ svör hans.
I will soon be giving a first in television history full, unedited preview of the vicious attempted takeout interview of me by Lesley Stahl of @60Minutes. Watch her constant interruptions & anger. Compare my full, flowing and magnificently brilliant answers to their Q s . https://t.co/L3szccGamP
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 22, 2020
Undir enda myndbandsins gagnrýndi Trupm Stahl aftur fyrir að spyrja Biden ekki erfiðra spurninga. Þá sagði hún að Biden væri ekki forseti.
„Afsakaðu mig Lesley, þú sagðir við mig, það fyrsta sem þú sagðir við mig var: Ertu tilbúinn fyrir erfiðar spurningar? Svona segir maður ekki. Svona segir maður ekki,“ sagði Trump.
Mike Pence, varaforseti, átti svo að mæta einnig í viðtalið en Trump hætti við það og stöðvaði viðtalið.
Í Facebookfærslu þar sem myndbandið var birt stendur: „Sjáið hlutdrægnina, hatrið og dónaskapinn frá 60 mínútum og CBS. Þulur kvöldsins, Kristen Welker, er mun verri!“ Welker mun stýra kappræðum Trump og Biden í nótt.