Umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem búið hefur hér á landi í tæp sjö ár og greitt skatta og gjöld, hefur hvorki rétt á atvinnuleysisbótum né öðrum félagslegum réttindum frá ríkinu. Efnt hefur verið til undirskriftarsöfnunar til stuðnings fjölskyldunni.
Í gær sögðum við frá hjónunum Bassirou og Mahe sem eru frá Senegal. Dætur þeirra Marta og María sem eru sex og þriggja ára fæddust báðar hér á landi. Sú yngri er á leikskóla en sú eldri í Vogaskóla og tala þær íslensku. Fjölskyldunni verður að óbreyttu vísað úr landi en hjónin hafa búið hér á landi í tæp sjö ár.
Bassirou hefur unnið á hóteli hér á landi í þrjú og hálft ár og borgað fulla skatta, greiddi í lífeyrissjóð og sinnti skyldum sínum líkt og aðrir launþegar auk þess sem vinnuveitandi hans greiddi tryggingagjald. Hótelið þurfti að loka vegna faraldurs kórónuveirunnar og missti Bassirou því vinnuna. Hann á ekki rétt á félagslegum réttindum.
„Þá á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum því hann er á þessari utangarðs kennitölu. Bráðabirgðarleyfi. Samt sem áður þarf hans vinnuveitandi að greiða fullt tryggingagjald. Hann borgar sjálfur fulla skatta. Hann á engin réttindi í heilbrigðiskerfinu,“ segir Elín Árnadóttir, lögmaður fjölskyldunnar.
„Þetta er náttúrulega bara svo fáranleg réttastaða sem þetta fólk er búið að búa við.“
Fjölskyldan hefur án árangurs barist fyrir því í sex ár að fá dvalarleyfi hér á grundvelli mannúðarsjónarmiða, óskað eftir alþjóðlegri vernd eða dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið.
Elín Árnadóttir, lögmaður fjölskyldunnar hefur farið fram á enn eina endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendingamála.
Efnt hefur verið til undirskriftasöfnunnar til stuðnings fjölskyldunni.