Súdan hefur ákveðið að loka landamærum sínum að Eþíópíu að hluta vegna átaka þar í landi. Margir óttast að landið sé á barmi borgarastyrjaldar en spennan hefur aukist mikið í samskiptum stjórnar Tigray-héraðsins í norðurhluta landsins og alríkisstjórnarinnar síðustu mánuði.
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu hét því í gær að halda áfram sókn hers landsins inn í héraðið og sakaði hann á miðvikudag vopnaðar sveitir í Tigray um að hafa ráðist á herstöð eþíópíska hersins.
Stjórnin í al-Qadarif héraðinu í austurhluta Súdan hóf lokun landamæra sinna að eþíópísku héruðunum Tigray og Amhara á fimmtudag, samkvæmt fréttum ríkisútvarps Súdan.
Þá sendi stjórnin út aðvörun til súdanskra íbúa sem búa nálægt landamærunum, og vöruðu við afleiðingum átakanna í Eþíópíu.
Að sögn súdanskra stjórnvalda er mikil uppskerutíð í nágrannahéruðum Eþíópíu í Súdan og gætu öryggisógnir skaðað bændur og uppskeru þeirra.