Mál á borði Barnaverndar Reykjavíkur eru þegar orðin fleiri en allt árið í fyrra. Framkvæmdastjórinn segir rót í samfélaginu og samkomutakmarkanir hafa aukið öryggisleysi barna.
Á fyrstu tíu mánuðum ársins bárust Barnavernd Reykjavíkur tæplega fjögur þúsund og fjögur hundruð tilkynningar vegna barnaverndarmála. Það er um tíu prósent meira en allt árið í fyrra. Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir að tilkynningum hafi fjölgað bæði í fyrri bylgju faraldursins og þeirri þriðju.

„Ég held að aukningin sé í fyrsta lagi það að það er verið að leggja áherslu á að við séum að fylgjast með börnunum og stöðu barnanna, líðan barnanna. Aukningin er líka náttúrulega þetta ástand sem við erum í sem er covid-ástandið og þær breytingar sem hafa orðið á umhverfi barnanna. Þetta hefur sett svona meira rót á börnin og kannski aukið öryggisleysið,“ segir Hákon.
Hann segir heimilisofbeldismálum hafa fjölgað þar sem börn eru og tilkynningum um áfengis- og vímuefnaneyslu verðandi mæðra. Þá séu vísbendingar um aukna áhættuhegðun barna.
„Við erum að sjá aukningu í ofbeldi sem að börn eru að beita. Við erum að sjá aukningu líka í afbrotum, þar sem að börn eru þátttakendur í afbrotum. Þetta rót sem að veldur ákveðnu óöryggi, það er að leiða til þess að það er ekki sama taumhald sem að hefði þurft að vera undir eðlilegum kringumstæðum.“