Orri Steinn Óskarsson hefur verið á skotskónum með unglingaliði FC Kaupmannahafnar að undanförnu og sautján ára lið danska félagsins er í góðum málum á toppi sinnar deildar.
Orri Steinn skoraði á dögunum þrennu í 8-1 sigri FCK á FC Midtjylland í U-17 ára deildinni.
Orri Steinn Óskarsson er sextán ára gamall síðan í ágúst en í fyrra hjálpaði hann Gróttu að komast upp í Pepsi Max deildina. Orri Steinn spilaði þó ekkert með Gróttu í Pepsi Max því hann samið við FCK síðasta vetur.
Orri Steinn var búinn að spila í meistaraflokki síðan hann var fjórtán ára gamall og það er gaman að sjá að hann er að finna sig vel með unglingaliðinu í Kaupmannahöfn.
U19 tabte 0-2 til FC Midtjylland, men U17 åd ulveungerne med 8-1 Fire kasser af Roony Bardghji (#10), tre af Orri Oscarsson (#9) og en enkelt af Noah Nartey (#30) #fcklive pic.twitter.com/9JVAhRuqK6
— F.C. København (@FCKobenhavn) November 7, 2020
Umboðsmaðurinn Magnús Agnar Magnússon setti inn myndband af þrennu Orra og sagði frá því að strákurinn hafi skorað 10 mörk í 7 leikjum á tímabilinu.
Orri Steinn var reyndar ekki markahæstur á vellinum því liðsfélagi hans Roony Bardghji skoraði fernu. Roony Bardghji spilar á miðjunni og í treyju númer tíu. Orri er frammi og í treyju númer níu.
Sautján ára lið FCK hefur fimm stiga forskot á toppi deildarinnar með átta sigra og eitt jafntefli í níu leikjum. Markatalan er 44-16.
Það sýnir kannski styrk strákana í sautján ára liðinu að liðið sem þeir unnu 8-1, Midtjylland, situr í öðru til þriðja sæti deildarinnar með sex sigra og tvö jafntefli í níu leikjum en þetta var fyrsta tap liðsins.
Hér fyrir neðan má sjá þrennuna hjá Orra Stein.