„Þetta voru tveir mismunandi hálfleikir. Við vorum svolítið aftarlega í fyrri hálfleik og þeir voru mikið með boltann. En það breyttist í seinni hálfleik, það var meiri kraftur í okkur og við reyndum að pressa þá,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson eftir tap Íslands fyrir Danmörku, 2-1, á Parken í kvöld. Gylfi var fyrirliði Íslendinga í leiknum.
Viðar Örn Kjartansson jafnaði fyrir Ísland á 85. mínútu en Christian Eriksen skoraði sigurmark Danmerkur úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
„Að jafna þegar stutt er eftir og fá svo mark á sig mark er svekkjandi,“ sagði Gylfi og bætti við að íslenska liðið hefði gert áherslubreytingar í hálfleik.
„Við gerðum eina skiptingu, Gulli [Guðlaugur Victor Pálsson] kom inn á og við reyndum að færa miðjumennina framar. Þeir fengu mikinn tíma í fyrri hálfleik og settu okkur í vandræði með hreyfingum í kringum miðjumennina. En við réðum betur við það í seinni hálfleik og þetta var örugglega mikið skemmtilegri leikur á að horfa,“ sagði Gylfi.
Aðeins þrír dagar eru síðan Ísland tapaði fyrir Ungverjalandi á sárgrætilegan hátt í umspili um sæti á EM.
„Þetta hefur verið mjög erfitt og örugglega einhverjir erfiðustu dagarnir á okkar ferli. Við höfum upplifað mjög góða tíma síðustu ár og erum kannski of góðu vön. En það er ekki hægt að neita því að þetta var mjög erfitt. En kannski var gott að fá leik strax, ekki gleyma þessu heldur að halda áfram og líta á næstu keppni,“ sagði Gylfi sem staðfesti að hann færi til Englands á morgun.
Hann lék allan leikinn í kvöld og gegn Ungverjalandi en fær frí í leiknum gegn Englandi á Wembley á miðvikudaginn.