Mótmæli gegn stjórnvöldum halda áfram í Taílandi og í gærkvöldi hópuðust þúsundir mótmælenda fyrir framan höfuðstöðvar lögreglunnar í höfuðborginni Bangkok og ríkti í raun umsátursástand á svæðinu.
Fólkið er óánægt með þá ákvörðun stjórnvalda að hafna stjórnarskrárbreytingum í landinu og þá hefur lögregla verið sökuð um að beita mótmælendur harðræði. Margir mættu með málningu til mótmælanna í nótt og var henni skvett á lögreglustöðina í miklu magni.
Lögreglumenn lokuðu sig af inni í höfuðstöðvunum og skárust ekki í leikinn. Mikil reiði er í landinu eftir mótmæli þriðjudagsins þar sem um fjörutíu mótmælendur særðust í átökum við lögregu.