Íslenska landsliðið mun njóta liðsinnis Hauks Helga Briem Pálssonar í leikjunum í búbblunni í Slóvakíu í forkeppni HM 2023. KKÍ segir frá því að þessi sterki leikmaður muni spila með liðinu í þessum leikjum.
Í kvöld verða allir leikmenn mættir á liðshótelið fyrir utan Hauk Helga Briem Pálsson sem ferðast til Slóvakíu á þriðjudags- eða miðvikudagskvöld frá Andorra en hann þarf að skila neikvæðri niðurstöðu úr seinni COVID skimuninni sinni áður en hann mætir á svæðið og inn í „búbbluna“.
Haukur Helgi @haukurpalsson búinn að ná sér og verður með íslenska liðinu í Slóvakíu!
— KKÍ (@kkikarfa) November 23, 2020
https://t.co/gQVgRbgQD7#korfubolti pic.twitter.com/mIdRJ5GRYw
Haukur Helgi hafði greinst með kórónuveiruna í upphafi mánaðarins en hann hefur jafnað sig og er búinn að mælast neikvæður fyrir helgi og er með mótefnamælingu úr blóðprufu en samkvæmt reglum FIBA þarf að skila þessari seinni niðurstöðu úr prófi sem hann fer í á morgun þriðjudag.
Það kemur fram í frétt KKÍ að mikil vinna hafi farið í það að ná saman lausum endum til að láta allt ganga upp og nú er það allt frágengið. Það er því ljóst að allir leikmenn og starfsmenn komast í „búbbluna“ og verða klárir fyrir fyrsta leik gegn Lúxemborg.
Það fer vel um liðið á hótelinu og mannskapurinn er kátur að hittast og vera saman. Framundan er fyrsta liðsæfing hópsins í keppnishöllinni seinnipartinn og verður æft áfram á morgun og miðvikudag í undirbúningi liðsins fyrir leikina tvo.