Lögfræðingar Ghislaine Maxwell, aðstoðarkonu og fyrrverandi kærustu Jeffreys Epstein, segja að fangaverðir vekji hana á kortersfresti til þess að athuga með lífsmörk hennar.
Maxwell er ákærð fyrir að hafa hjálpað Epstein að finna og búa ungar stúlkur, allt niður í fjórtán ára gamlar, undir að taka þátt í ólöglegum kynlífsathöfnum sem hún hafi sjálf stundum tekið þátt í. Hún er einnig sökuð um meinsæri í framburði sínum í einkamáli sem kona sem segist hafa verið fórnarlamb Epstein höfðaði gegn henni. Hún neitar sök en hefur verið í varðhaldi frá því í júlí.
Lögfræðingar segja að henni sé í raun haldið í einangrun og að fylgst sé með henni í gegnum myndavélar allan sólahringinn.
„Þrátt fyrir þetta er svefn hennar truflaður á kortersfresti og hún vakin með vasaljósi til þess að athuga hvort að hún andi,“ skrifar lögfræðingur hennar í bréfi til dómstóls sem fer með mál hennar í New York. Vilja lögfræðingar hennar að dómari í máli hennar taki aðstæður í fangelsinu þar sem henni er haldið til skoðunar.
Öryggisgæsla í kringum Maxwell er mikil, ekki síst eftir að Epstein svipti sig lífi í fangaklefa í New York eftir að hafa verið ákærður fyrir mansla og misnotkun.