Þorsteinn mælir með því að fólk skammti sér tíma úti við annað kvöld. Þeir sem veikir eru fyrir ættu þó að halda sig innandyra og passa að gluggarnir séu lokaðir.
Við þær veðuraðstæður sem eru í kortunum annað kvöld á mengunin sér enga undankomuleið og því er viðbúið að loftgæðin verði með eindæmum slæm. Mörgum er minnisstæð flugeldamengunin sem myndaðist áramótin 2016/2017 en þá mátti vart sjá litadýrðina fyrir reykmekkinum.
„Það er viðbúið að það verði talsverð mengun langt fram eftir nóttu og jafnvel fram eftir morgni. Loftið nær ekki að þynnast,“ sagði Þorsteinn.
„Þetta hefur náttúrulega fyrst og fremst áhrif á þá sem veikir eru fyrir og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma en í raun hefur þetta einhver áhrif á alla þegar þetta er orðið svona mikið. Ef við erum að tala um klukkustundarstyrkur svifryks verði upp á nokkur hundruð eða jafnvel nokkur þúsund míkrógrömm á rúmmetra þá gætu allir fundið fyrir einhverjum óþægindum.“

Þorsteinn segir að hópurinn sé nokkuð stór sem þarf sérstaklega að gæta sín á gamlárskvöld.
„Það má segja ung börn, fólk með undirliggjandi sjúkdóma, allt eldra fólk og núna á þessum COVID-tímum bætist við þessi hópur sem hefur fengið COVID og glímir við eftirköstin og þeir eru þá líka viðkvæmir fyrir þessu.“
Viðkvæmir flýja svifryksmengunina í höfuðborginni
Flugeldasala hefur gengið afar vel þetta árið en Þorsteinn biðlar til fólks að fresta sprengingum þar til á þrettándanum. Og í staðinn fyrir að kaupa flugelda sé hægt að styrkja björgunarsveitirnar með beinum framlögum.
Hvað getur fólk gert til að verja sig og sína?
„Já, áhrif á heilsu eru líka mikið tengd tímabilinu sem þú ert í þessari miklu mengun, þannig að takmörkun á útivist er það sem hægt er að gera, hægt er að halda sig innandyra með lokaða glugga og svo heyrir maður á viðkvæmu fólki sem hreinlega fer út á land, í sumarbústað eða eitthvað þannig að sumir eru í erfiðri stöðu.“