Dana White, yfirmaður UFC, þrjóskast enn við, þrátt fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar og samkomubann, og er ekki tilbúinn að fresta risa bardagakvöldi í aprílmánuði.
UFC frestaði í dag næstu þremur bardagakvöldum en Dana White er harður á því að halda UFC 249 í aprílmánuði.
Þann 18.apríl næstkomandi á að fara titilbardagi á milli þeirra Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson en það er ljóst að áhuginn á honum væri mjög mikill ekki síst ef engar aðrar íþróttir væru í gangi á sama tíma.
The UFC has postponed their next three events but Dana White has said that the title fight between Khabib Nurmagomedov and Tony Ferguson will go ahead in April.
— BBC Sport (@BBCSport) March 17, 2020
More here https://t.co/oBIS3VW8kz pic.twitter.com/KcNImxXZ9J
UFC var að reyna að flytja bardagakvöldið sem átti að fara fram í London á laugardaginn en mistókst að fara með það til Bandaríkjanna. Tveimur bardagakvöldum í Las Vegas hefur einnig verið frestað.
Það er samkomubann komið í gildi í Bandaríkjunum þar sem ekki fleiri en tíu mega lengur koma saman.
Dana White ræddi framtíð UFC 249 bardagakvöldsins en það átti að fara fram í New York. Í viðtali við ESPN má heyra á kappanum að hann gæti flutt það í burtu frá Bandaríkjunum til að sjá til þess að það gæti farið fram.
Khabib Nurmagomedov hefur titil að verja en hann hefur unnið alla 28 bardagana á sínum ferli.