Skólahald í Skútustaðahrepp hefur verið lagt niður vegna kórónuveirunnar bæði í leikskólanum Yl og Reykjahlíðarskóla. Aðgerðirnar taka gildi strax á morgun og munu standa yfir um óákveðinn tíma. Þá hefur íþróttamiðstöðinni einnig verið lokað. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Skútustaðahrepps.
Ákvörðunin um þessar hertu aðgerðir var tekin nú í dag vegna hertari aðgerða heilbrigðisyfirvalda sem kynntar voru í dag og þar sem staðfest hefur verið eitt smit hjá íbúa sveitarfélagsins. Þá var það tilkynnt í gær að á annan tug íslenskra ferðamanna sem dvöldust í Mývatnssveit um síðustu helgi er smitaður af veirunni.
Þrátt fyrir að skólum hafi verið lokað munu kennarar Reykjahlíðaskóla halda úti fjarkennslu og þá verður tónlistarkennsla áfram í formi fjarkennslu. Þá kemur fram í tilkynningunni að viðbragðshópur sveitarfélagsins og forstöðumenn muni funda reglulega til að afla upplýsinga og endurmeta stöðuna í sveitarfélaginu.
„Nemendur og starfsfólk leik- og grunnskóla Skútustaðahrepps hefur staðið mjög vel á erfiðum tímum. Nýjar áskoranir koma upp á hverjum degi en með samtakamætti og auðmýkt tekst okkur að komast í gegnum þennan skafla,“ segir í tilkynningunni.