Seðlabanki Íslands hefur boðað til blaðamannafundar í dag. Fundurinn hefst klukkan 10 og má nálgast beina vefútsendingu af fundinum hér að neðan.
Fram kom í fundarboði að til umræðu verði ákvörðun peningastefnunefndar að hefja bein kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði, sem greint var frá á mánudag. Þar að auki verður kynning á stöðu og horfum efnahagsmála.
Kynningin verður í höndum Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra og formanns peningastefnunefndar, og Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands og framkvæmdastjóra sviðs hagfræði og peningastefnu.
Þetta er þriðji kynningarfundurinn sem Seðlabankinn blæs til á jafn mörgum vikum. Fyrri fundirnir tveir hverfðust um stýrivaxtalækkanir, lækkun bindiskyldu og afnám sveiflujöfnunarauka.
Útsendingu Seðlabankans af fundi dagsins má sjá hér að neðan, en hún hefst klukkan 10 sem fyrr segir.
Uppfært: Fundinum er lokið en upptöku af honum má sjá að neðan.