Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ætlar í sóttkví eftir að náinn ráðgjafi hans greindist smitaður af nýju afbrigði kórónuveiru sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Fleiri ráðgjafar hans fara einnig í sóttkví.
Ísraelska dablaðið Haaretz segir að ráðgjafi Netanjahú í þingmálum hafi greinst smitaður í dag. Ákvörðunin um að setja forsætisráðherrann í sóttkví hafi verið tekin í varúðarskyni og áður en faraldsfræðilegri rannsókn væri lokið. Fleiri ráðgjafar Netanjahú fylgja honum í sóttkví.
Hamas-samtökin sem ráða ríkjum á Gasaströndinni vinna nú að því að setja upp tvær stórar sóttkvíarmiðstöðvar til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar þar. Þær eiga að geta vistað um þúsund manns og vera tilbúnar innan viku.
Gasaströndin er eitt þéttbýlasta svæði jarðar þar sem um tvær milljónir manna búa á landsvæði sem er minna en höfuðborgarsvæðið. AP-fréttastofan segir að enginn viti hversu mikið veiran hafi breiðst út á Gasa. Talið er að fyrstu smitin hafi borist til Gasa með tveimur mönnum sem fóru á trúarráðstefnu í Pakistan. Aðeins um fimmtungur þeirra 1.700 sem hafa farið í sóttkví hafa verið skimaðir.

Heilbrigðisþjónusta er í ólestri á Gasaströndinni vegna herkvíar Ísraelsmanna, ítrekaðra stríða við Ísraelsher og innbyrðisdeilur Hamas og annarra samtaka Palestínumanna. Aðeins sextíu öndunarvélar eru á Gasa og eru 45 þeirra þegar í notkun, að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Upphaflega kom Hamas á föt bráðabirgðastöðvum fyrir sóttkví. Eftir að myndir bárust af fólki að halda afmælisveislur og reykja vatnspípur saman í slíkum stöðvum var gripið til harðari aðgerða til að hefta útbreiðsluna.