Samtök atvinnulífsins eru vonsvikin með það sem þau telja óbilgirni verkalýðshreyfingarinnar, nú þegar þrengir að í íslensku efnahagslífi. Umleitanir þeirra um að fresta launahækkunum í þessu árferði hafi skollið á daufum eyrum Drífu Snædal, forseta ASÍ, og annarra í framlínu verkalýðsins.
Sjá einnig: Stærri biti en verkalýðshreyfingin var tilbúin að kyngja
„Aðgerðir stjórnvalda hafa allar miðast við að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja og fordæmalausa fjölgun atvinnulausra vegna þess tímabundna áfalls sem COVID-19 faraldurinn hefur valdið. Á sama tíma skellir verkalýðshreyfingin hurðinni á nef atvinnurekenda þegar óskað er eftir samstarfi um leiðir til að bregðast við þeirri grafalvarlegu stöðu sem ríkir í atvinnulífinu,“ segir þannig í langri yfirlýsingu SA vegna þessa.
Umræddar launahækkanir sem samtökin óttast eru til komnar vegna Lífskjarasamningsins, sem samþykktur var fyrir um ári síðan. Samningurinn hækkar laun á almennum vinnumarkaði að lágmarki um 24 þúsund krónur hjá þeim sem hafa lægri laun og 18 þúsund krónur hjá hærra launuðum frá og með deginum í dag. Þetta samsvari 4 prósenta hækkun launakostnaðar fyrir fyrirtækin, sem SA segir að mörg hver ráði ekki við nú þegar kórónuveirufaraldurinn lamar atvinnulífið.

Af þessum sökum segjast SA hafa leitað til ASÍ á mánudag og óskað þess að umræddum launahækkunum yrði frestað. Fyrir slíkri frestun séu fordæmi, til að mynda í hruninu. Þá var sambærilegum hækkunum frestað um hálft ár.
„Árið 2009 voru það sameiginleg viðbrögð samningsaðila almenna vinnumarkaðarins að bregðast við alvarlegu kreppuástandi með breytingum á kjarasamningum til að vernda störf og atvinnustarfsemi. Núverandi forysta Alþýðusamband Íslands virðist hafa allt aðra afstöðu en sambandið hafði þá til stóraukins atvinnuleysis og hættu á lömun atvinnulífsins,“ skrifa Samtök atvinnulífsins. Máli sínu til stuðnings nefna þau mikla ásókn í hlutabætur ríkisstjórnarinnar og stóraukið atvinnuleysi.
„Það eru vægast sagt mikil vonbrigði á sama tíma og fyrirséð er að allt að fimmti hver einstaklingur á vinnumarkaði muni fá bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði á næstunni.“
Yfirlýsingu SA má nálgast í heild sinni hér og bréf SA til ASÍ má lesa með því að smella hérna.
Uppfært klukkan 12:55.
Samtök atvinnulífsins segjast ekki vera miður sín með ofangreinda afstöðu ASÍ eins og upphaflega var greint frá. Þau séu aðeins vonsvikin. Þetta hefur hér með verið leiðrétt.