Fjöldi látinna í Ekvador er allt að fimmtán sinnum hærri en opinberar tölur um dauðsföll af völdum kórónuveirufaraldursins segja, samkvæmt greiningu New York Times á gögnum um dánartíðni í landinu. Miðað við þær tölur er Ekvador einn miðpunkta faraldursins í heiminum.
Samkvæmt opinberum tölum höfðu 503 látist af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur, 15. apríl. Engu að síður voru rúmlega 7.600 fleiri dauðsföll frá 1. mars til 15. apríl en að meðaltali á sama tímabili undanfarin ár.
New York Times segir að tölfræði um dánartíðni í miðjum faraldri sé ónákvæm og umframdauðsföllin séu bæði fólk sem lést úr Covid-19 en einnig af öðrum sökum, þar á meðal þeir sem hafa látist vegna þess að þeir komust að ekki að á yfirfullum sjúkrahúsum vegna veirunnar.
Þrefalt fleiri létust í landinu en vanalega fyrstu tvær vikurnar í apríl þegar greind smit voru í hámarki. Það er enn meiri aukning en átti sér stað á Spáni og Bretlandi sem hafa orðið illa úti í faraldrinum.
Stjórnvöld hafa gengist við því að opinberar tölur gefi ekki rétta mynd af mannskaðanum í faraldrinum frá upphafi. Lenín Moreno, forseti, sagði í ávarpi í byrjun apríl að jafnt tölur um dauðsföll sem nýt smit næðu ekki utan um raunveruleikann. Ríkisstjórn hans glímir á sama tíma við verstu efnahagskreppu Ekvadors í áratugi.
Útgöngubann sem stjórnvöld komu á um miðjan mars virðist byrjað að bera árangur. Nýjum smitum sem greinast á dag er hætt að fjölga. Þá létust færri í borginni Guayaquil í síðustu viku en áður. Þar var dánartíðnin áttfalt hærri fyrstu tvær vikurnar í apríl en í venjulegu árferði. Það er tvöfalt meira en gerðist í New York í Bandaríkjunum sem er miðpunktur faraldursins þar.

Líkunum staflað upp eins og kartöflupokum
Faraldurinn hefur valdið miklum usla í Ekvador. Aðeins nokkrum vikum eftir að fyrsta tilfellið kom upp í Guayaquil voru sjúkrahús yfirfull og lík hrúguðust upp úti á götum þar sem kerfið hafði ekki undan að grafa þau eða brenna. Margar fjölskyldur gripu til þess örþrifaráðs að grafa ástvini sína í kistum úr pappa.
Læknir á Teodoro Maldonado Carbo-sjúkrahúsinu í borginni sagði New York Times að ástandið þar væri eins og úr hryllingsmynd. Lík sitja í hjólastólum, liggja á sjúkrabörum og á gólfinu á bráðadeildinni. Sumt starfsfólk neiti að fara þangað inn vegna nályktarinnar.
Darío Figueroa, vinnumaður í Guayaquil, lýsir því þegar hann leitaði að líki móður sinnar í yfirfullu líkhúsi Guasamo Sur-sjúkrahússins í tólf klukkutíma seint í mars. Móðir hans lést við komuna á sjúkrahús þangað sem hún leitaði vegna öndunarfærasýkingar. Aldrei var tekið sýni úr henni vegna veirunnar.
Figeuroa klæddist heimatilbúnum hlífðarklæðnaði úr ruslapokum. Í líkhúsinu sá hann hundruð rotnandi líka í stöflum eins og kartöflupokar.
„Fnykurinn var óþolandi. Líkhúsið var stútfullt, gangarnir líka, þegar voru mjög langir og fullir af líkum. Biðstofan var líka full af líkum,“ segir Figueroa.