„Við köllum þetta Rauðvín og klaka. Ég og nokkrir aðrir spilum saman Call of Duty, drekkum eina rauðvínsflösku á mann, og bjóðum hverjum þeim sem vill að fylgjast með og spjalla við okkur á Twitch á meðan, segir Steindi sem stendur fyrir útsendingu á leikjastreymisíðunni Twitch í kvöld þar sem hægt verður að fylgjast með honum spila í rauntíma.
Útsending Steinda hefst klukkan tíu og stendur til um klukkan eitt í nótt. Steindi og félagar hafa spilað á sama hátt síðustu tvær vikur og voru viðtökurnar vægast sagt góðar. Þúsundir fylgdust með.
Með Steinda í kvöld spila nokkrir vel valdir félagar sem hann hefur spilað mikið með áður, þeir Óli í Game Tíví, Digital Cusz og MVPete.
Hægt er að horfa á útsendinguna í spilaranum hér fyrir neðan.
Streymi Steinda á Twitch er með stærstu íslensku leikjastreymunum. Steindi hvetur fólk til þess að ekki bara fylgjast með heldur einnig að taka þátt í umræðunni í spjallinu við útsendinguna.
„Ég svara þeim spurningum sem fólk spyr. Umræðan verður mjög skemmtileg þegar margir hrúgast þarna inn.“
Hægt er að fylgjast með spjallinu hér fyrir neðan.