Þá eiga mótmælin að fara fram í öllum 50 höfuðborgum Bandaríkjanna.
Þetta kemur fram í innri skjölum FBI sem blaðamenn ABC News hafa komist á snoðir um. Í frétt miðilsins segir að FBI sé einnig að vara við því að vopnaðir menn ætli sér að ráðast til atlögu og brjóta sér leið inn í opinberar byggingar víðsvegar um Bandaríkin.
AP fréttaveitan hefur eftir heimildarmönnum sínum sem hafa lesið skjölin að rannsakendur FBI telji meðlimi fjarhægri öfgasamtaka hafa komið að skipulagningu mótmælanna.
Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa lagt formlega fram frumvarp um að kæra Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í annað sinn fyrir embættisbrot. Í frumvarpinu er Trump sakaður um að hafa hvetja fólk til uppreisnar varðandi árásina á þinghúsið í síðustu viku.
Starfsmenn FBI eru einnig sagðir hafa fengið fregnir af því að meðlimir öfgahóps ætli sér að ferðast til Washington DC þann 16. janúar. Öfgamennirnir hafi hótað stærðarinnar uppreisn ef Trump verði vikið úr embætti.
Í frétt Washington Post segir að til standi að virkja allt að fimmtán þúsund meðlimi þjóðvarðliðs Bandaríkjanna og senda þá til Washington DC vegna embættistökunnar. Nú þegar hafa um sex þúsund menn verið sendir frá sex ríkjum.
Það er til viðbótar við viðbúnað annarra löggæsluembætta í borginni en óljóst er hvort þjóðvarðliðarnir munu bera vopn eða ekki. Það veltur á ákvörðunum ráðamanna.