Fimm manns dóu vegna árásarinnar. Þar á meðal lögregluþjónn sem sagður er hafa fengið slökkvitæki í höfuðið og kona sem skotin var af löggæslumanni þegar hún var að reyna að brjóta sér leið inn í þingsal, þar sem vopnaðir menn stóðu vörð.
Michael Sherwin, ríkissaksóknari Washington DC, varaði þó við því á blaðamannafundi í kvöld að rannsókn gætu tekið langan tíma. Þetta væri í raun fordæmalaus rannsókn þar sem allt þinghúsið væri vettvangur glæps.
Sérstakri athygli er beint að verstu brotunum og brotum þar sem vopn komu við sögu.
Hér má hlusta á hluta blaðamananfundar Sherwin í kvöld.
Sherwin sagði einnig að búið væri að bera kennsl á minnst 170 manns sem taldir eru hafa brotið af sér þegar múgur réðst á þinghúsið með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu niðurstaða forsetakosninganna sem haldnar voru í nóvember og Joe Biden vann.
Verið er að rannsaka hvort einhverjir aðilar hafi ætlað sér að beita þingmenn og jafnvel varaforseta Bandaríkjanna ofbeldi.
Steven D’Antuono, yfirrmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna í Washington DC, segir að stofnunin leggi mikið púður í rannsóknina og að gífurlega mikið af upplýsingum hafi borist frá almenningi. Margir sem ruddust inn í þinghúsið birtu myndir og myndbönd af því á netinu, sem hafa verið notuð til að bera kennsl á þá.
Þeirri vinnu verður haldið áfram. Þó fólkið hefði farið aftur heim sagði D’Antuono að útsendarar FBI myndu banka upp á hjá þeim.
Í frétt CNN segir að verið sé að skoða að bæta einhverjum þeirra sem tóku þátt í árásinni á þinghúsið á lista yfir þá sem mega ekki ferðast með flugvélum. Bandarískir þingmenn hafa kallað eftir því á undanförnum dögum.
The #FBI and our partners are seeking information to help us pursue individuals who instigated violence on January 6 in Washington, D.C. Look at the photos we've added at https://t.co/MMTOKcDiy7, and if you see someone you recognize, submit a tip at https://t.co/buMd8vYXzH.
— FBI (@FBI) January 11, 2021