Veður

Gular við­varanir og hryssings­legt sunnan- og vestan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi við Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir og Norðurland vestra vegna éljagangs til kvölds.
Gular viðvaranir eru í gildi við Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir og Norðurland vestra vegna éljagangs til kvölds. Vísir/Vilhelm

Úrkoma og vindur minnkar heldur miðað við í gær en áfram verður fremur hryssingslegt veður sunnan- og vestantil. Gera má ráð fyrir skúrum eða slydduéljum og líkur eru á krapa og hálku á fjallvegum.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði þurrt og bjart á köflum norðaustantil.

Gular viðvaranir eru í gildi við Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir og Norðurland vestra vegna éljagangs til kvölds. Vegagerðin beinir því til vegfarenda um athuga að víða á Vestur- og Norðurlandi sé hálka eða hálkublettir á fjallvegum, meðal annars á Hellisheiði og í Þrengslum.

Hiti á landinu verður á bilinu tvö til tólf stig, mildast austanlands.

„Til morguns dregur enn frekar úr vindi og úrkomu og líkur á að sólin nái aðeins meir á milli skýja, sem aftur gefur aðeins hlýrra veður yfir daginn. Á sunnudag er að sjá að vindur verði orðinn suðvestlægari ásamt því að það hlýnar heldur og að auki gera spá ráð fyrir að þurrt verði um mest allt land. Síðan er að sjá að veðrið haldi áfram að batna enn frekar eftir helgi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan átta í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Vestlæg átt, 5-13 m/s og dálítil él eða skúrir, en yfirleitt bjartviðri austanlands. Hiti 3 til 12 stig, svalast á Vestfjörðum.

Á sunnudag: Suðvestan 3-10 m/s, skýjað með köflum og þurrt að mestu, en léttskýjað eystra. Hiti 7 til 13 stig yfir daginn.

Á mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag: Fremur hægar suðlægar áttir og skýjað með köflum við suðvesturströndina, en annars víða léttskýjað eða bjartviðri. Hlýtt í veðri, einkum fyrir norðan og austan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×