Fjögur lið eru með átta stig á toppi Domino´s deildar kvenna í körfubolta eftir að sjötta umferðin fór fram í gær. Þessi þrjú lið hafa þó ekki spilað jafnmarga leiki.
Keflavík, Fjölnir og Valur eru liðin með átta stiga á toppnum, Keflavík í fjórum leikjum, Valur í fimm leikjum og nýliðar Fjölnis í sex leikjum.
Keflavíkurkonur hafa unnið alla fjóra leiki sína í vetur en þær sóttu sigur á Ásvöllum í gær. Keflavík vann leikinn 67-57 en þær gátu þakkað stórkostlegri frammistöðu Danielu Wallen Morillo fyrir það.
Daniela Wallen Morillo var með 31 stig, 23 fráköst og 45 framlagsstig í leiknum. Anna Ingunn Svansdóttir skoraði þrettán stig og var næststigahæst. Bríet Sif Hinriksdóttir var stigahæst hjá Haukum með 17 stig en liðið hefur nú tapað tveimur heimaleikjum í röð á mót Val og Keflavík.
Fjölniskonur höfðu tapað tveimur fyrstu leikjum sínum eftir að keppni hófst á ný en þær unnu alla þrjá leiki sína í haust. Grafarvogsliðið náði að enda taphrinuna með 75-68 sigri á botnliði KR. KR-konur hafa enn ekki unnið leik í deildinni.
Ariel Hearn skoraði 30 stig, tók 15 fráköst og gaf 6 stoðsendingar hjá Fjölni og Litháinn Lina Pikciuté var með 15 stig og 13 fráköst. Taryn McCutcheon skoraði 24 stig fyrir KR.
Helena Sverrisdóttir fór fyrir Valskonum í 80-68 sigri á Snæfelli en Valsliðið lék án hinnar bandarísku Kiana Johnson sem er meidd á öxl. Helena var með 17 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar í leiknum en Hallveig Jónsdóttir var stigahæst með 21 stig.
Blikakonur fögnuðu sínum öðrum sigri í röð þegar þær unnu bikarmeistara Skallagríms 71-64. Jessica Kay Loera átti sinn besta leik með liðinu í vetur og skoraði 28 stig.
Hér fyrir ofan má sjá samantekt Gaupa frá leikjum gærkvöldsins.