Loðnan veiddist úr 22 þúsund tonna kvóta sem þegar er búið að gefa út en gengur fyrst til grænlenskra, færeyskra og norskra skipa vegna milliríkjasamninga. Útgefinn loðnukvóti Polar Amaroq er 1.155 tonn en skipið, sem er í eigu Polar Pelagic, hefur um þriðjung grænlenska loðnukvótans.

Í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar er rætt við skipstjórann Sigurð Grétar Guðmundsson. Þar kemur fram að eitt hol hafi verið tekið í leiðindaveðri „í trollhólfinu austur af landinu“. Loðnan hafi verið stór og töluverð áta í henni. Aflinn verði frystur um borð. Þar sé hins vegar bullandi bræla og ekkert annað að gera en að leita vars.
Hafrannsóknastofnun stefnir að því að kynna nýtt mat á stofnstærð loðnunnar á morgun og þá skýrist hvort einnig verði hægt að gefa út kvóta til íslenskra skipa. Stofnunin er jafnframt að skipuleggja næsta loðnuleitarleiðangur fjögurra skipa og er stefnt að því að þau leggi í hann á sunnudag, samkvæmt upplýsingum Sigurðar Guðjónssonar forstjóra.