Bannið tók gildi í apríl árið 2019, en á þeim tíma gegndu 8.980 trans einstaklingar herþjónustu. Aðeins þeir sem voru nú þegar í herþjónustu fengu að halda áfram, en lokað var fyrir nýskráningar trans fólks í herinn.
Bannið var gagnrýnt af Lloyd Austin, nýjum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fyrr í vikunni. Að hans mati ættu allir þeir sem uppfylltu hæfisskilyrði að mega skrá sig í herinn.
Trump tilkynnti bannið upphaflega í röð tísta sem hann birti á Twitter-reikningi sínum. Sagði hann herinn hvorki samþykkja né leyfa trans fólki að vera í hernum þar sem það hefði í för með sér „stórkostlegan lækniskostnað og truflanir“.
Biden hafði margoft lýst því yfir að hann hygðist fella bannið úr gildi og fyrr í vikunni greindi starfsmannastjóri hans frá því að fyrsta vikan færi í að leiðrétta hlut minnihlutahópa og annarra sem höfðu átt undir högg að sækja undanfarin ár.