Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sækist áfram eftir því að vera oddviti Framsóknar í Reykjavík suður. Þá hefur Ásmundur Einar, lýst því yfir að hann sækist eftir oddvitasæti flokksins í Reykjavík norður en hann var oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 2017. Hvorugt þeirra næði inn á þing ef kosið yrði í dag samkvæmt nýrri könnuninni.
„Ég er nú vanur því að glíma við brekkur. Ég hef engar áhyggjur af þessu. Það er langt til kosninga. Við höfum unnið gott starf. Ég hlakka til að takast á við þessa áskorun og er viss um að þetta mun breytast eftir því sem tímanum vindur fram,“ segir Ásmundur Einar.
Hann segist ekki sjá eftir því að hafa horfið frá því sem mætti telja öruggu þingsæti sem þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og taka slaginn í Reykjavík.
„Alls ekki. Við höum verið að ráðast í róttækar breytingar á þessu kjörtímabili í þeim málaflokkum sem ég hef unnið í. Ég vil sjá enn stærri breytingar og þegar við förum að ræða þær þá er ég sannfærður um að það mun leggjast í góðan jarðveg hér á höfuðborgarsvæðinu.“
Nefnir Ásmundur stórar kerfisbreytingar í málefnum barna og í húsnæðismálum. Hann vilji enn stærri breytingar.
„Ég vil sjá almennar kerfisbreytingar sem eru á þessum meyði sem við höfum verið að vinna að. Setja venjulegt fólk í fyrsta sæti.“