Vísa þeir sömuleiðis til þess að Navalní hafi brotið af sér á skilorði vegna meiðyrðamáls sem höfðað var gegn honum fyrir ummæli um gamlan rússneskan hermann. Þetta kemur fram í frétt Moscow Times um yfirlýsingu saksóknara.
Þar að auki var hafin rannsókn gegn Navalní í desember vegna meintra fjársvika þar sem hann er sakaður um að hafa dregið sér milljónir úr andspillingarsamtökum sínum. Navalní gæti verið dæmdur í allt að tíu ára fangelsi vegna þess máls.
Navalní og bandamenn hans segja öll þrjú málin vera til sprottin af pólitískum rótum.
Sjá einnig: Navalní úrskurðaður í gæsluvarðhald
Réttarhöldin yfir Navalní vegna skilorðsbundna dómsins hefjast á morgun.
Hann var handtekinn vegna þessa þegar hann sneri aftur til Rússlands þann 17. janúar. Navalní hafði þá verið í Þýskalandi frá því í sumar, eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu Novichok í Rússlandi. Fjölskylda hans og bandamenn fluttu hann í dái til Þýskalands.
Í lok desember var honum svo skipað að snúa aftur til Rússlands og var hann sakaður um að hafa brotið gegn skilorðsdómi, sem rann út um áramótin, með því að fara til Þýskalands.
Sá dómur á rætur sínar að rekja til ársins 2014 þegar hann var dæmdur fyrir þjófnað.
Navalní segist saklaus af þessum ásökunum og Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að yfirvöld í Rússlandi hafi brotið á Navalní en hann var handtekinn sjö sinnum á árunum 2012-2014.
Dómstólinn komst einnig að þeirri niðurstöðu árið 2017 að dómsmálið gegn Navalní væri ólögmætt og gerræðislegt.
Varðandi gamla hermanninn, þá kallaði Navalní hann og nokkra aðra aðila svikara, svo eitthvað sé nefnt. Hermaðurinn, sem barðist í seinni heimsstyrjöldinni, og hinir tóku þátt í kynningarmyndbandi fyrir stjórnarskrárbreytingar Vladimírs Pútín, sem gera honum kleift að sitja í embætti forseta Rússlands til ársins 2036.
Samkvæmt rússneskum lögum gæti Navalní verið dæmdur til fimm ára fangelsisvistar vegna meiðyrðanna meintu.
Samanlagt gæti Navalní varið allt að átján og hálfu ári í fangelsi vegna þessara þriggja mála.
Undanfarnar tvær helgar hafa umfangsmikil mótmæli farið fram vegna handtöku Navalnís víðsvegar um Rússland. Rúmlega fimm þúsund manns eru sögð hafa verið handtekin vegna mótmæla í gær. Eftirlitsamtök segja að mótmælendur hafi verið barðir af lögreglu, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Boðað hefur verið til nýrra mótmæla á morgun, þegar réttarhöldin hefjast.