Aðstæður til leitar hafa verið erfiðar og í gær tókst aðeins að fljúga þyrlum pakistanska hersins við átta þúsund metra hæð en fjallið er 8.611 metra hátt.
Það var á fimmtudagskvöldið sem þeir félagar héldu á stað í átt að toppnum en gert var ráð fyrir að það tæki þá fimmtán til sextán klukkustundir að ná toppnum.
Um fimmleytið aðfaranótt föstudagsins lenti fjórði maðurinn sem var með í för, Sajid Sadpara, í vanda og sneri við. Sajid er sonur Alis sem er með John Snorra og Juan Pablo.
Þegar hann sá þremenningana síðast voru þeir við flöskuháls í um 8.200 metra hæð eða um fjögur hundruð metra frá toppnum. Síðan þá hefur ekkert heyrst í þeim.
Sajid kvaðst á blaðamannafundi í gær vonlítill um að faðir hans og samferðamenn finnist á lífi. Hann sagði að björgunaraðgerðir ættu að snúast um að finna líkamsleifar en líkurnar á því að einhver gæti komist lífs af eftir þriggja daga dvöl í átta þúsund metra hæð væru litlar sem engar.