Ekkert hefur spurst til Johns Snorra og samferðamanna hans, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, síðan á föstudag. Ekki var unnt að leita að þremenningunum úr lofti í dag vegna veðurs og hefur leitarflugi þannig verið aflýst tvo daga í röð. Áfram er gert ráð fyrir slæmu veðri á svæðinu næstu daga og óvissa ríkir um framhald leitarinnar.
Karrar Haidri, forstöðumaður háfjallafélags Pakistan, tilkynnti um bann stjórnvalda við frekari ferðum á K2 í dag. Hann sagði að á þriðja tug fjallgöngumanna væru nú á leið niður úr hlíðum K2 í grunnbúðir. Þá sagði hann yfirvöld hafa fundað um stöðu mála á fjallinu í dag.
K2 er eitt hættulegasta fjall heims. Ellefu fjallgöngumenn fórust í hlíðum fjallsins á einum degi árið 2008. Þrír fjallgöngumenn hafa látist á og við K2 á vetrartímabilinu sem nú er á enda; Spánverjinn Sergi Mingote fórst um miðjan janúar og Búlgarinn Atanas Skatov fórst í byrjun þessa mánaðar.
Alex Goldfarb, Bandaríkjamaður sem hugðist klífa fjallið Broad Peak í grennd við K2 nú í janúar, fannst látinn 18. janúar eftir umfangsmikla leit. John Snorri Sigurjónsson var á meðal þeirra sem tóku þátt í leitinni.