Alls hafa átta verið handteknir síðustu daga í tengslum við rannsókn á morðinu á hinum þrjátíu og þriggja ára Armando Beqirai, sem skotinn var til bana fyrir utan heimili sitt við Rauðagerði seint á laugardagskvöld.
Sjö hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, síðast þrír í vikulangt varðhald í gærkvöldi. Mennirnir sjö eru allir á fertugsaldri, fyrir utan einn sem er á fimmtugsaldri. Einn Íslendingur er í hópnum en hinir sex eru útlendingar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu handtók lögregla konu í tengslum við rannsókn málsins en henni var sleppt í gær. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu í dag að fleiri hafi ekki verið handteknir.
Gæsluvarðhald yfir manni sem handtekinn var fyrstur skömmu eftir morðið rennur út á morgun, 19. febrúar. Margeir segir að nú sé til skoðunar hvort farið verði fram á lengra varðhald yfir honum.
Að minnsta kosti fjórir mannanna hafa kært eða munu kæra gæsluvarðhaldsúrskurðina til Landsréttar. Margeir vill lítið gefa upp um gang rannsóknarinnar en segir að lögregla telji sig vera með þá í haldi sem áttu þátt í morðinu með einhverju móti.